Fyrir Byrjendur

Fróðleikur um dúfur

Dúfur eru lifandi áhugamál sem krefst lítils. Dúfur þola vel smá frost. Dúfuhúsið þarf ekki að vera einangrað. Þær þurfa ekki mikið pláss en ágætt að reikna með 1 m3 á dúfupar.

Dúfur þola vel vind en ættu að hafa stað þar sem enginn trekkur er. Þær þurfa alltaf að hafa aðgang að vatni. Dúfa borðar um 35 gr af dúfufóðri á dag. Hægt er að gefa þeim úr “automat” eða á hverjum degi. Dúfufóður inniheldur oft baunir, hveiti, mais, bygg, “vikker” o.fl. Dúfum finnst gott að hafa (sand) stráð á gólfið eða í útibúrið (stíuna).

Þrif á kofanum getur maður gert þegar maður hefur tíma. Þær þurfa að hafa aðgang að skeljasandi til að uppfylla þörfina á kalki. Þær ættu að hafa skál í kassa (varphólfi) til að geta verpt í. Þær þiggja gjarnan hreiðurefni s.s. strá o.fl. Ef þú vilt para ákveðið dúfupar er hægt að loka þær í hreiðurkassanum (varphólfinu) í nokkra daga, og muna að gefa þeim að borða og drekka.

Kvenfuglinn verpir oftast 2 eggjum, sem báðir foreldrar liggja á í um 18 daga. Ungarnir “gogga” sig sjálfir út úr eggjunum og lifa á dúfumjólk fyrst á eftir. Ungana þarf að merkja með viðurkenndum fóthringjum. Ungarnir fljúga svo úr hreiðrinu ca 4-5 vikna gamlir og bjarga sér eftir það sjálfir. Allt í sambandi við dúfur er frekar ódýrt.

Fræðslugrein: Hvað er það mikilvægasta fyrir dúfur?

Hvað er það mikilvægasta sem þú gefur dúfunum þínum? Fóður hugsar þú kannski, jú mikilvægt ekki satt því að án þess lifa fuglarnir ekki en ekki það mikilvægasta, ha segir þú, allt í lagi þá hlýtur það að vera vatn, jú líka mjög mikilvægt en samt ekki mikilvægast, nei nú ertu eitthvað að rugla hugsar þú kannski en nei ég er með fullu viti.

Og nú skal ég fræða þig lesandi góður um það mikilvægasta sem þú gefur fuglunum þínum.Þetta er ekkert undralyf eða súper vítamín heldur GRIT og PIKKSTEINN, ha hvað er það gætu sumir hugsað og er það einmitt ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa grein, það eru margir sem ekki átta sig á mikilvægi þess að gefa grit og pikkstein.

Byrjum á að útskýra hvað grit er og hvað það gerir fyrir fuglana.Grit er einskonar grófur skeljasandur sem inniheldur malaðar ostru skeljar, rauðstein(redstone) og aðrar steintegundir (mismunandi eftir tegundum).Það sem þetta gerir fyrir dúfurnar er að þetta veitir nauðsynleg stein og jarðefni en hjálpar einnig til við að brjóta niður kornið í sarpinum og melta fóðrið fullkomlega.Já ég veit segja nú eflaust þeir sem þetta vissu fyrir og eru alltaf með grit hjá sínum dúfum en þá segi ég á móti, bíddu ná hægur það er ekki sama hvernig þú gefur fuglunum grit, margir eru með lítinn leirpott eða skál á gólfinu hjá sér og fylla á hann annað veifið en það er ekki rétt aðferð því að fuglarnir vilja ekki grit sem hefur legið í potti eða skál í nokkra daga og safnað ryki eða raka, þess vegna skal gefa grit á hverjum degi eða annan hvern dag og bara lítið í einu eða eins og fuglarnir vilja.
         

Þá er það pikksteinninn, eins og grit þá inniheldur hann heilmörg stein og jarðefni, í pikksteininum eru leir, sjávargrös, ostruskjeljar, viðarkol, magnesium, sölt og ýmis náttúruleg efni sem eru fuglunum mikilvæg.Pikksteinninn þarf að vera aðgengilegur allt árið.Ýmsar tegundir eru til bæði þar sem pikksteinninn er steyptur í pott og nægir þá að setja pottinn inn á gólf hjá fuglunum eða steiptur í blokk en þá þarf að setja hann í dall eða eitthvert ílát.

Það sem að grit og pikksteinn gera er að halda fuglunum heilbrigðum, veita þeim nauðsynleg efni úr náttúrunni og hjálpa til við niðurbrot á korni og meltingu.Grit og pikksteinn koma einnig í veg fyrir kalkskort sem er mjög mikilvægt, sérstaklega fyrir kvenfuglana því að þær framleiða jú eggin, en einnig fyrir ungana því að þeir vaxa jú nokkuð hratt og þurfa því mikið kalk fyrir vaxandi bein.Ef ungar verða fyrir kalkskorti má sjá að bringubeinið getur orðið skakkt eða bogið en einnig geta komið upp ýmis önnur heilsufars vandamál eða jafnvel dauði og á það við um fullorðna fugla líka.

Þó að fóður og vatn séu vissuleg lífsnauðsynleg fyrir dúfurnar þá eru grit og pikksteinn ekki síður mikilvæg því að það er einmitt það sem heldur dúfunum heilbrigðum og hamingjusömum.